Stóra ákvörðunin...

Sjaldan hef ég tekið mér jafngóðan tíma til að kynna mér stefnuskrá flokkanna og hlusta/horfa á kosningaumræðurnar í sjónvarpinu eins og nú fyrir þessar kosningar.

Það er eitt með loforðin og gylliboðin sem streyma yfir okkur almúgann og flest góðra gjalda verð.  Stóra spurningin er með efndirnar.  En ég er hinsvegar að taka ákvörðun um mitt atkvæði útfrá Umhverfismálum fyrst og fremst.  Þar af leiðir mun mitt atkvæði  ekki nýtast ríkjandi stjórn. 

Sumt verður bara aldrei fyrirgefið!

Ég hef líka verið að rifja upp ýmis mál sem hafa komið fram á undanförnum árum, minn gamli flokkur gekk nú nánast bersersksgang í fjölmiðlafrumvarpinu eins og frægt er, ritskoðun?  Forsetinn okkar nýtti sér neitunarvaldið og hvað gerðist þá?  Jú þá átti bara að stokka upp stjórnarskránna!!!  Skyndilega voru undirstöður þjóðarinnar orðnar að marklausu plaggi !

Munið þið eftir þjóðarsáttinni?  Allir tala um góðærið en hverjir björguðu þjóðarskútunni (ríkisstjórninni) þá?  Launþegar, og þá aðallega verkafólkið.  Á sama tíma dirfðust þeir að hækka launin sín!!!  Hvað var það annað en langatöng á lýðinn!  En endalaust reyna þeir að hirða hrósið fyrir stöðugleikann.  Sagði einhver spilling?

Sem betur fer hefur heilsa fjölskyldunnar verið góð að undanskildum örfáum tilfellum.  Þá hef ég orðið áþreifanlega vör við hvað það er orðið dýrt að verða veikur, að ég tali nú ekki um biðina á bráðavaktinni eða bið eftir rannsóknunum.  Ég borga rúmlega 8 þúsund krónur fyrir tanneftirlit sonar míns!  Sem tekur 5 mínútur ! Og þá er ég að tala um skoðun eingöngu.  Ég fæ u.þ.b. 5 þúsund krónur endurgreiddar.    Mikið er básúnað um að menntun sé frí hér á landi.  Aldeilis ekki.  Skráningargjöld meira að segja nokkuð há.  Fínt að sletta því að skólagjöld séu engin, svo má bara kalla það öðrum nöfnum, svona svipað og jaðarskattarnir. 

Stéttaskipting í grunnskólum er einnig farin að verða áberandi, ekki allir sem hafa efni á að greiða fæði og heilsdagsvistun í skólunum.  Ég veit um eina sem leitaði láns rétt fyrir mánaðarmót svo barnið hennar kæmist í rútuferð með bekknum sínum.   Sú sleppir því að greiða gjald í foreldrasjóð í skóla barnanna sinna og telur sig litna hornauga fyrir. 

Skrýtið hvað Árni Johnsen er lítið áberandi þessar kosningarnar.  Heyrist ekki múkk í manninum.  Hann er þó í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn, en má rifja upp hans mál? Er maður þá ekki að sparka í mann sem hefur fengið uppreisn æru?  Já alveg rétt, hann fékk mannorð sitt hreinsað af handhafa forsetavalds.  Bíddu, forsetanum?  Neh ekki alveg, hann var staddur í útlöndum og sá sem bar ábyrgð á meðan veitti honum æruna alveg skattfrjálst.  Sagði einhver spilling?

Stéttaskiptingin er orðin æði áberandi hér í landi og allir vita að kvótakerfið er meingallað.  Ég verð að segja Samfylkingunni til hróss að auglýsingar þeirra hitta í mark.  Gömlu hjónin aðskilin á veitingahúsinu og lýsandi dæmi um raunveruleikann á hjúkrunarheimilunum.   Það eru þeir öldruðu sem við getum þakkað góðærið í landinu.  Það fólk hefur unnið sitt og skilað sínu.  Njóta þess? Neh, þeim er fullgott af því að eiga 1/3 eftir af laununum sínum.   Amma mín tók ekki í mál að fara á elliheimili þegar hún komst að því að hún myndi eiga sléttan fimm þúsund kall eftir til að lifa út mánuðinn. 

Talandi um Samfylkinguna, Össur alveg brjál yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn bauð nemendum Háskóla Reykjavíkur í kokteil en gleymdi því að hans flokkur hafði sjálfur boðið uppá sama.  Kannski fúll yfir því að hans boði var hafnað?  Veit ekki.   Velti bara fyrir mér hvort atkvæði kosti einn tvöfaldan?   Ætli það.

En það þarf nú aðeins meira en flottar auglýsingar til að kaupa atkvæði mitt.  Samfylkingin fær ekki mitt atkvæði útá það að hafa fundið sér snilldar auglýsingastofu.  Sem aftur fær mig til að hugsa um sjóðina sem flokkunum er úthlutað í auglýsingar.  Íslandsflokkurinn fær ekki neitt.

Lengi er hægt að telja upp neikvæðar afleiðingar af þessari ríkisstjórn en auðvitað eitthvað gott, ætla að láta öðrum það eftir enda ekki vöntun á skrúðmælginni í þeim efnum.   

Ég hef ákveðið mig.  Íslandsflokkurinn skal það vera, ég ætla að leggja traust mitt á það að mínu(dýrmæta)atkvæði sé vel varið.    Þar stendur í forsvari, maður sem fer fram af hugsjón.  Sterkum baráttuvilja fyrir landi og þjóð.  Maður með mikla reynslu sem fréttamaður, flugmaður, bílstjóri og endalaust má telja.  Það að hann búi yfir hæfileikum eins og ljóðmælgi, húmor og skáldskap er bara bónus.   Þykir það fyndið að lesa það hjá hinum og þessum að það sé skyndilega löstur.  Fólk með þokkalega dómgreind aðskilur það frá sterkri hugsjón.   Þykir það miður að hlusta á bombarderingar sem ganga út á það að hann eigi ekki heima í stjórnmálum vegna starfs hans sem skemmtikraftur í gegnum tíðina.  Hann hefur annað við tímann að gera en að svara þannig lágkúru.  Ef við ættum aðeins fleiri hugsjónamanneskjur á þingi væri betri tíð. 

Ég óska Samfylkingunni og Vinstri grænum gengis í kosningunum, Íslandsflokknum bara betra gengis


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband